• 5/4 2020 kl. 07:52

  Sunnudagur 5. apríl

  Ekkert spor í dag. Hér er hvasst.

  Minnum fólk á að  hægt er að kaupa miða á göngusvæðið hjá N1 Ártúnsbrekku,  Mosfellsbæ, Stórahjalla kópavogi og N1 Lækjagötu í Hafnafirði. Og einnig inni á heimasíðunni skidasvaedi.is, muna að láta senda kvittun á póstinn ykkar. Vinsamlegast hafið kvittunina meðferðis í brautinni.

  Skíðasvæðunum hefur verið lokað til varnar útbreiðslu Covid-19.  Gildir á meðan samkomubann er í gildi.

  Hægt er að smella á myndina hér að neðan til að sjá yfirlýsingu Samtaka skíðasvæða á Íslandi sem kom eftir að sóttvarnarlæknir áréttaði í dag um hertar reglur til varnar útbreiðslu.

  Göngusvæði verður þó opið áfram en ekki er heimilt að halda mót í skíðagöngu né æfingar þar sem fólk safnast saman.  Virðum 2 metra nálgunarregluna svo ekki þurfi að skera þessa þjónustu niður líka.

Grænar leiðir

Grænar leiðir eru fyrir byrjendur. Mælt er með því að byrjendur haldi sig í nágrenni skálanna.

Bláar leiðir

Blár leiðir eru léttar leiðir við hæfi allra sem hafa grunnkunnáttu á skíðum.

Rauðar leiðir

Rauðar leiðir eru aðeins við hæfi góðra skíðamanna sem vilja hraða og meiri bratta.

Skíðafólk

Fyrir byrjendur mælum við einna helst með að halda sig í nágrenni skálanna, þar sem auðveldustu lyfturnar eru.

Nyrst er Eldborgargil og eru þar fjórar lyftur. Kolbeinn kafteinn (Framlyftan), Vandráður (Beygjulyftan), Tinni (Byrjendalyftan) og Tobbi (Kaðallyftan). Best er að komast frá Eldborgargili yfir í Kóngsgil með því að renna sér frá endastöð Vandráðs.

Næst er Kóngsgil og þar er Kóngurinn (nýja stólalyftan), Drottningin (gamla stólalyftan), Lilli klifurmús (Borgarlyftan). Patti broddgöltur (kaðallyftan) og svo auðvitað þau Amma mús og Hérastubbur (byrjendalyfturnar við Blafjallaskálann). Það er frábær staður fyrir byrjendur með auðveldum brekkum. Þar eru líka leiktæki til að hleypa enn meira lífi í skíðaferðina fyrir smáfólkið.

Sunnar komum við svo að Sólskinsbrekku og Suðurgili. Í Sólskinsbrekku er Mikki refur (tengilyfta Suðursvæðis og Kóngsgils), Jón Oddur og Jón Bjarni (diskalyfturnar tvær), Amma dreki (byrjendalyftan) og í Suðurgili er Gosinn (stólalyftan). Auðvelt er að komast á milli Sólskinsbrekku og Kóngsgils með því að fylgja troðinni braut sem tengir svæðin.

Brettafólk

Við mælum með því að snjóbrettafólk nýti sér Kónginn og Drottninguna og haldi sig á svæðinu norður af Drottningunni.

Við viljum hvetja brettafólk til að fara varlega í snjóhengjum sem eru utan hins skipulagða skíðasvæðis vegna snjóflóðahættu.

Samkvæmt öryggisreglum skíðasvæða á brettafólk alltaf að vera með annan fótinn lausan í stólalyftu og skylda er að hafa öryggisól á brettinu tengda við sig.

Slys og óhöpp

Ef skíða- eða brettafólk verður fyrir óhappi eru sérþjálfaðir starfsmenn okkar ávallt reiðubúnir til aðstoðar. Ef um alvarlegri slys er að ræða þurfa nærstaddir að leita aðstoðar næsta starfsmanns strax og mun hann sjá um að koma boðum til sérþjálfaðra skyndihjálparmanna sem bregðast við eftir aðstæðum.

Minniháttar meiðsli meðhöndlum við fúslega í Bláfjallaskála, en þá er gengið inn um starfsmannainngang á norðurgafli hússins. Starfsmönnum okkar er ljúft og skylt að veita þá aðstoð sem þeir eru færir um að veita hverju sinni.